Ávarp forstjóra

Örn Guðmundsson

Við erum tilbúin

Starfsárið 2021 var viðburðarríkt en jafnframt árangursríkt hjá Mannviti. Heimsfaraldurinn hélt áfram að setja mark sitt á samfélagið en einnig sköpuðust tækifæri á sviði sjálfbærni í breyttu umhverfi. Tækifæri og reynsla sem munu nýtast okkur um ókomna tíð.

Við viljum vera fyrirmynd í verki en leggjum líka áherslu á að helstu hagaðilar okkar hugi að sjálfbærni í rekstri sínum því mestu áhrif okkar eru ekki vegna eiginlegrar starfsemi Mannvits, heldur þau áhrif sem við höfum á verkefni og þjónustu við viðskiptavini okkar.

 

Til að ná árangri í vegferðinni að sjálfbærni þarf nefnilega andrými sem kallar ekki stöðugt á ný met. Andrými sem fyrirtæki sem nú þegar hafa náð árangri í atriðum tengdum sjálfbærni virðast hafa í ríkari mæli en þau sem eru að hefja vegferð sína að sjálfbærni. Skammtímasjónarmið og áhersla á skjótvirkar aðgerðir skila sjaldan gullverðlaununum.  Segja má að vegferð Mannvits að sjálfbærni hafi hafist þegar Mannvit varð til við samruna Hönnunar, VGK og Rafhönnunar en þá strax var rík áhersla lögð á umhverfis- og gæðamál. Skerpt var á þessari hugsun árið 2018 þegar hlutverk Mannvits, að skapa og stuðla að sjálfbæru samfélagi, var skilgreint og metnaðarfull markmið sett fram. Til að fylgja þessu eftir eru árlega sett krefjandi markmið um notkun auðlinda og losun gróðurhúsalofttegunda í rekstrinum.

 

Á árinu 2021 náðum við ekki markmiðum okkar í heildarlosun, en vert er að staldra við og skoða langtíma markmiðin. Mannvit hefur náð að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um rúm 50% síðastliðin fimm ár þrátt fyrir aukin umsvif. Því við hjá Mannvit sækjumst eftir því að koma með gullið heim og horfum til langs tíma.

„Til að ná árangri í vegferðinni að sjálfbærni þarf nefnilega andrými sem kallar ekki stöðugt á ný met.“

Ársins 2021 verður minnst sem viðburðarríks árs en það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla krafti sem er í okkar öfluga mannauði.  Starfsfólkið sýndi enn og aftur hvað í því býr og aðdáunarvert er að sjá hve helgað sjálfbærnisvegferðinni starfsfólk okkar er. Færi ég þeim kærar þakkir fyrir framlag þeirra.

 

Framundan eru áhugaverðir tímar við þá áframhaldandi uppbyggingu á sviði sjálfbærni sem viðskiptavinir og starfsfólk kalla eftir. Við höfum unnið mikið starf við að kortleggja þarfir viðskiptavina okkar á sviði sjálfbærni og erum tilbúin til að taka þátt með þeim í þeirri vegferð.