Landsvirkjun hefur sett sér markmið um að vera kolefnishlutlaus árið 2025. Þá verði binding kolefnis a.m.k. jafn mikil og losun þess hjá fyrirtækinu. Orkuskipti og lágmörkun í notkun jarðefnaeldsneytis í framkvæmdaverkum eru hluti af aðgerðaáætlun Landsvirkjunar en Mannvit vann skýrsluna fyrir hönd Landsvirkjunar. Verkefnið styður við heimsmarkmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum, markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu ásamt markmiði 7 um sjálfbæra orku. Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis með því að skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Samhliða þarf ákveðna uppbyggingu innviða til orkuskipta.
Malbikstöðin mun skipta yfir á metanbrennara við framleiðslu á malbiki. Metanið kemur frá Sorpu og er unnið úr heimilissorpi höfuðborgarbúa. Malbikstöðin mun kaupa allt að milljón normalrúmmetrum (Nm3 ) af hreinsuðu metangasi á ári. Metangasið kemur í stað dísilolíu sem dregur umtalsvert úr kolefnisfótspori malbiksins. Kolefnissporið minnkar um allt að 2.700 tonn CO2-ígildi á ári. Þessi tækni við framleiðsluna styður við heimsmarkmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum og markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu. Mannvit kom að allri verkfræðivinnu við undirbúning verkefnisins.
Ljósmynd: Malbikstöðin
Mannvit, í samstarfi við danska ráðgjafarfyrirtækið COWI, þróaði nýtt umferðarlíkan fyrir höfuðborgarsvæðið. Helsta nýjungin er að líkanið gerir ráð fyrir fjölbreyttum ferðamátum þar sem er greint og spáð fyrir umferð bíla, farþega almenningssamgangna, þ.m.t. Borgarlínu og umferð hjólandi. Líkanið verður m.a. notað til að greina áhrif skipulagsbreytinga og framkvæmda á ferðavenjur. Niðurstöðurnar verða einnig notaðar til loftslagsútreikninga. Samhæfð ferðamátaþjónusta (e. Mobility as a service) er að ryðja sér til rúms og jafnframt er gert ráð fyrir að sjálfkeyrandi tækni geti haft töluverð áhrif á samgöngur á næstu áratugum. Þannig má gera ráð fyrir verulegum breytingum í ferðamynstri íbúa á næstu árum og því þörf á verkfæri til að greina og meta áhrif þessara breytinga. Líkangerðin styður við heimsmarkmið 13 um aðgerðir í loftslagsmálum og markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög.
Arion banki fékk Mannvit til liðs við sig til að greina íbúðareignir í húsnæðislánasafni sínu og skilgreina viðmið um grænt húsnæði á Íslandi. Taka þau mið af kolefnisspori á framleiðslu- og byggingarstigi og á lífsferli byggingar. Einnig er horft til notkunar og nýtni orku, en það eru tveir þættir sem hafa helst áhrif á losun kolefnis á líftíma bygginga. Rétt væri að horfa einnig til fleiri þátta til að fá heildrænt yfirlit, svo sem almenningssamgöngur, loftslagsþol, úrgang og endurvinnslu. Verkefnið styður við heimsmarkmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög og markmið 13 um verndun jarðar og aðgerðir í loftslagsmálum.
Geothermal Risk Mitigation Facility (GRMF) er jarðhitasjóður í Austur Afríku sem styrkir jarðhitaverkefni á frumstigi. Hlutverk sjóðsins er að aðstoða fyrirtæki í fyrstu skrefum jarðhitaverkefna. Sjóðurinn fjármagnar því bæði yfirborðsrannsóknir og boranir. Markmiðið er að styrkirnir fari til verkefna sem eru líkleg til að verða að virkjun.
Frá árinu 2014 hefur Mannvit verið tæknilegur ráðgjafi við þennan $122 M.USD sjóð en 12 lönd í Austur Afríku geta sótt í sjóðinn. Á árinu 2021 var samningur um ráðgjöf endurnýjaður við Mannvit en sjóðurinn er fjármagnaður af þýska þróunarbankanum og fleiri alþjóðlegum stofnunum. Verkefnið styður við heimsmarkmið 7 um sjálfbæra orku, 11 um sjálfbærar borgir og samfélög og markmið 13 um verndun jarðar og aðgerðir í loftslagsmálum.
Við gerð göngu- og hjólastígs við Suðurlandsbraut 68-74 var notað 20% endurunnið malbik auk þess sem allt uppgrafið efni úr stígstæðinu var notað í hljóðmanir á svæðinu og þannig dregið úr akstri og losun gróðurhúsalofttegunda. Er þetta verklag viðhaft í fjölmörgum öðrum stígum sem Mannvit hannar og setur í útboð.
Endurunnið malbiksfræs er eingöngu notað í göngustíga, bílaplön og umferðarléttar götur til að uppfylla kröfur um magn og gæði steinefna ásamt asfalt prósentu malbiksins. Með þessu fyrirkomulagi er hægt að nýta betur takmarkaðar auðlindir, eins og bik og steinefni, íslenskum sem og erlendum. Verkefnið styður við heimsmarkmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og 11 um sjálfbærar borgir og samfélög.
Mannvit kom að gerð auglýsingar frá Land Rover fyrir nýjustu útgáfu Range Rover Sport sem tekin var upp við Hálslón hjá Kárahnjúkum þar sem bifreiðinni var m.a. ekið upp yfirfallsrennu. Mannvit reiknaði og kom að dæluvali og mat áhættu. Starfsmaður Mannvits var jafnframt á staðnum við upptökur, hafði umsjón með öryggismálum og endurmat áhættu eins og þurfti. Verkefnið styður við heimsmarkmið 3 um heilsu og vellíðan þar sem öryggi starfsfólks var gætt í hvívetna eins og mögulegt var við aðstæður á tökustað.
Hér má sjá auglýsinguna New Range Rover Sport vs The Spillway - YouTube
Ljósmynd: Land Rover
Festa og Mannvit buðu aðildarfélögum Festu til vinnustofu þar sem farið var yfir hvað felst í árangursríkri innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Námskeiðið gaf áhugasömum aðilum kost á að læra hvernig hægt er vinna á markvissan hátt með heimsmarkmiðin og innleiða þau í kjarnastarfsemi.
Markmiðið var að þátttakendur hefðu þau tæki og tól í höndunum sem þau þurfa til þess að vinna að árangursríkri innleiðingu heimsmarkmiðanna í sinn rekstur að vinnustofu lokinni. Á vinnustofunni var farið yfir heimsmarkmiðin og áherslur Íslands, hvernig á að lesa og skilja markmiðin, mælikvarða Heimsmarkmiðanna ásamt því sem að aðgerðir, áætlanir og áhrifarík innleiðing var skoðuð. Verkefnið styður við Heimsmarkmið 17 samvinna um markmiðin.